Abraham og terapían
Um daginn fann ég kvikmyndina Þagnarmúr (The Unsaid, 2001) í fullri lengd á Youtube og sá hana, var eiginlega kominn hálfa leið þegar ég mundi að ég hef eitt sinn séð hana í sjónvarpinu en var þá orðinn spenntur. Myndin er skemmtilegt tilbrigði við skrímslamyndir og sannglæpahlaðvörp nútímans og snýst um sálfræðing (leikinn af Andy Garcia) sem fer að sinna ungum manni (sem Vincent Kartheiser leikur) sem horfði barnungur á föðurinn myrða móðurina. Mörgum árum seinna er hinn 17 ára Tommy orðinn fullkomlega sakleysislegur, hættulaus og að því er virðist algerlega læknaður ungur maður en sálfræðingi hans líst ekki alveg á stöðuna og kallar inn sinn gamla kennara, s.s. Andy, til að meta þetta erfiða tilfelli, s.s. Vincent. Lykillinn að því að skilja málið felst í fortíðinni og hryllingsviðburðum hennar sem minna meira en lítið á klisjur hryllingsmynda. Öfugt við allar skrímslamyndirnar er Tommy ekki skrímslavæddur en ef honum væri beinlínis batnað væri auðvitað engin saga og vegna þess að allur sannleikurinn um atvikið hefur ekki verið dreginn fram og terapían ekki farið fram er hinn ungi Tommy sem sagt labbandi um sakleysislegur en ólæknaður og þar með (samkvæmt glæpamyndalógík) stórhættulegur. Smám saman kemur í ljós ljót misnotkunarsaga sem hefur áhrif í nútímanum. Eina vonin felst í terapíunni.
Saga fjölskyldu sálfræðingsins er ansi melódramatísk. Sonurinn hefur framið sjálfsmorð með fjölskyldubílnum (rafbíll hefði bjargað hér) og öll fjölskyldan er í upplausn þess vegna. Pabbinn hefur í kjölfarið ráðist að meintum nauðgara sonarins sem samstundis fremur sjálfsmorð líka, hjónin hafa skilið og lausung einkennir líf dótturinnar en þegar pabbinn fer að sinna hinum unga brothætta Tommy fellir hún hug til hans og virðist síðan í lífshættu meira og minna alla myndina þar sem hann stendur iðulega aftan við hana og virðist frekar ískyggilegur (sjá mynd að neðan). Vincent Kartheiser sem síðar lék í Mad Men er góður í flóknum hlutverkum þar sem áhorfandinn á stundum að halda með persónunni og stundum ekki. Vegna hefðarinnar á áhorfandinn líka von á skrímslavæðingu hans á hverri stundu, ekki síst þegar persónur fara að týna tölunni nálægt honum. Myndin væri ekki mikils virði nema vegna Vincents og hæfileika hans til að tjá meinleysi og hættu í senn; það er eiginlega merkilegt að hann hafi ekki orðið enn stærri leikari þar vestra en kannski verður svo að lokum.
Hið eiginlega freudíska skrímsli sem sálfræðingurinn glímir við er dauði sonarins sem honum finnst hann hefði átt að bjarga og hin kaldhæðnislega sekt terapistans sem gat ekki veitt meðferð undir eigin þaki og virðist bæði áhorfendum og Tommy sjálfum að ungi vandræðagemsinn eigi greinilega að vera staðgengill sonarins, annar möguleiki á frelsun. Sálfræðingurinn fullyrðir þó að hann hafi raunverulegan áhuga á Tommy og að lokum nær hann að bjarga lífi hans á afar melódramatískan hátt sem augljóslega er yfirbót fyrir hvernig fór fyrir syninum. Hér er sagan farin að minna talsvert á hina fornu goðsögn um Abraham og Ísak með öfugum formerkjum því að frelsun Ísaks er nú orðin jafnmikilvæg pabbanum og það var hinum gamla Abraham forðum lykilatriði að sanna fórnarlund sína fyrir Guði. Það er kannski þessi óhjákvæmilega lausn sem spillir fyrir myndinni; hún lifir mun betra lífi þegar órætt er hvað muni gerast en þegar negla þarf niður tiltekna niðurstöðu.
Að lokum er Tommy kominn í fangabúning á eins konar geðveikrahæli sem er kannski ekki mjög farsæl lausn fyrir hann en pabbinn og terapistinn er mættur að sinna terapíunni sem hann flaskaði á forðum og hin farsæla lausn er að fanginn Tommy er til í samtalið. Kannski finnst manni Ísak eiginlega fórnað í þessari sögu en allt er það gert fyrir síðbúna frelsun fjölskylduföðurins sem fær að halda sínu mikilvægi sem terapisti; þetta er s.s. enn ein pabbamyndin. Eins má það kallast farsæll endir að Vincent nær ekki að drepa neinn nema aukapersónur og er það aldrei sýnt í mynd svo að við getum haldið samúð okkar með persónunni.