Himnesk hæna

Guðmundur Erlendsson á Felli er líklega ekki frægasta skáld 17. aldar en þó vel kunnur íslenskutöffurum sem höfundur Einvaldsóðs og Ræningjarímna. Hann ber líka ábyrgð á einu áhugaverðasta myndmáli um mestu menningarhetju seinustu þúsalda: „Ó minn Jesús himnesk hæna / hirðir minn og náðarskjól / einkatraust og vígið væna / verndarborg og dýrðarsól / upp nú læt eg á þig mæna / anda minn og sjónarhól.“ Þessar ljóðlínur eru sóttar Í Mattheus 23,37 þar sem Jesús Kristur líkir sér beinlínis við hænu sem safnar saman ungunum sínum og eru í handa hins kvenlega myndmáls um mannssoninn sem rætt var á sínum tíma af Caroline Walker Bynum í hinni frægu bók hennar Jesus as Mother og eins Ásdísi Egilsdóttur sem kynnti mig fyrir þessu myndmáli í námskeiði í háskólanum fyrir mörgum árum.

Ein ástæða þessarar greinar er að nú eru páskar en önnur að ég skulda vini pistil um hænumyndmál Guðmundar á Felli sem minnir á hversu fjölbreytt myndmál er í kristinni trú og er ekki seinna vænna að rifja það upp nú þegar þekking á því er óðum að hverfa. Jesús kallaði bæði sjálfan sig og postulana „ljós heimsins“ og þessi líking er auðvitað þekkt í íslenskri bókmenntasögu þar sem hún gekk aftur hjá Halldóri Laxness (sem fylgdi þar meðal annars í fótspor Hemingways). Annars vegar hvatti Kristur postulana til að láta ljós sitt skína en hins vegar fullvissaði hann lærisveina sína um að hver sá sem honum fylgdi myndi aldrei dvelja í myrkri. Þó að jólaljós hafi augljósan hagnýtan tilgang í skammdeginu er ekki heldur neinn vandi að tengja þau við frelsarann en jólahátíðinni fornu var fengið það hlutverk að vera fæðingarhátíð hans.

Annað þekkt Jesútákn er fiskurinn eða χθύς sem virðist hafa tíðkast í frumkristni sem dulmál fyrir frelsarann og sagt var að IKTUS væri skammstöfun fyrir Jesús Kristur Guð (T-ið, theos) sonur (U-ið, uios) og frelsari (S-ið, soter) á þeim tíma. Víða í guðspjöllunum má finna tengingar milli Krists og fiska en þó hvergi stað þar sem Kristur kallar sig beinlínis fisk (sem ég er raunar feginn). Annars má fræðast betur um sögu goðsagnarinnar um Krist og þróun hennar fyrstu átta aldirnar í nýlegri bók eftir Sverri Jakobsson sem Hið íslenska bókmenntafélag gaf út og munu örfá eintök vera til af henni hjá Bókmenntafélaginu. Þar kemur meðal annars fram að það var aldrei til nein ein saga um Krist, frá upphafi hefur goðsagan um hann verið eins konar mósaíkmynd og kannski skýrir það styrk hans sem menningarhetju.

Þar sem þessi skrif eru einkum til gamans fela þau ekki í sér neina tæmandi úttekt á líkingamáli en þó muna eflaust margir eftir lambinu og ýmsum hjartardýrum. Þó að gott sé að augu manna hafi opnast fyrir ýmsum öðrum trúarbrögðum og menningarstraumum væri ekki jafn gott ef vitundin um þetta forna myndmál sem er svo ríkt í menningunni glataðist með öllu.

Previous
Previous

Abraham og terapían

Next
Next

René Clair í Hollywood