Tónlist úr gæludýrabúðinni
Um daginn las ég að Pet Shop Boys væru nú álitnir ein helsta hljómsveit níunda áratugarins og flestir telja nú þeirra flutning á „Always on My Mind“ betri en sjálfs rokkkóngsins Elvis. Bæði virðist staða þeirra hafa styrkst vegna þess að þeir náðu öðrum betur að fanga tíðaranda síns blómaskeiðs og hafa síðan haldið áfram í endalausri tilraunamennsku sem heldur sig þó fast við hljóðgervilskjarnann auk þess sem þeir eru töff án þess að reyna að vera það og síðan er Neil Tennant talinn einn áhrifamesti talpoppari (því að ekki er hann rappari) okkar daga þó að aðrir bendi á skýr áhrif frá „patter song“ í anda Gilberts og Sullivans og síðar Sondheim í töluðum söng hans í mörgum helstu lögum gæludýrabúðardrengjanna; á undan honum hélt leikarinn Rex Harrison uppi merkjum hins talaða söngs í söngleikjum enda var Harrison enginn söngvari. Tennant er hins vegar ágætur söngvari en kaus stundum að tala á móti gestasöngvara eins og Lizu og Dusty.
Öfugt við marga aðra tónlist níunda áratugarins voru Pet Shop Boys alltaf fullir af íróníu, blæbrigðum og margræðni og eins konar tónlistarkássu; margir helstu smellir þeirra eru í raun eins og 2-3 lög unnin saman í eitt og í „What Have I Done to Deserve This“ grófu þeir upp eina helstu poppdrottningu 7. áratugarins Dusty Springfield (1939–1999) sem hafði annars ekki sést á vinsældalistum lengi. Þeir voru þrælöfugir löngu áður en það komst í tísku og sviku aldrei hljóðgervilinn sinn. Þeir höfðu skrítinn smekk fyrir hefðbundnu og virðulegu stöffi, gerðu þannig kvikmynd með hinum þekkta sviðsleikara Joss Ackland og notuðu hann líka í myndbandinu við „Always on my mind“ (myndböndin þeirra eru mörg ansi fríkuð) og á 10. áratugnum endurunnu þeir Pachelbel upp í „Go West“ og bættu við mávagargi og fleira skemmtilegu. Fyrsti smellurinn þeirra „West End Girls“ var innblásinn af Eyðilandi T.S. Eliots — einhverjir muna kannski eftir paródíu Flight of the Conchords af því ágæta lagi („Inner City Pressure“) sem gefur orginalnum lítið eftir.
Þó að ég nenni helst ekki að segja lesendum mínum það sem allir vita eru Pet Shop Boys dúett og heita Neil Tennant og Chris Lowe; samstarfið hófst 1981 og þeir smelltu sér í efsta sæti vinsældalistans í fyrsta sinn í janúar 1986. Mér skilst að þeir hafi í einhverjum könnunum verið valdir áhrifamesti poppdúett Breta fyrr og síðar og hlýtur samkeppnin þó að vera ansi hörð. Tennant er mun meira áberandi enda gamall tónlistargagnrýnandi og málgefinn í viðtölum, aðallega vegna þess að Lowe segir mest lítið og hefur stundum verið kallaður kyrrasta stórstjarna breskrar poppsögu sem gerir hann auðvitað mjög heillandi fyrir okkur sem höfum áhuga á aukapersónum, fjarveru, mannafælum og rólegu fólki yfirleitt. Á tónleikum stendur Lowe oftast fyrir aftan Tennant, fastur við hljóðgervilinn, iðulega íklæddur íþróttafötum, húfu eða stöku sinnum óvenjulegra höfuðfati og sólgleraugum eins og njósnari sem vill ekki þekkjast, lætur sem hann sjái ekki áhorfendur og breytir aldrei um svip. Lítið sem ekkert vitað um líf hans enda ræðir hann það ekki opinberlega. Að sögn þeirra sem til þekkja hefur Lowe þó afgerandi og unglegan smekk og er jafn leiðandi í sveitinni og Tennant. Hann syngur aðalröddina í einu lagi þeirra sem fjallar um ítalska drengjatísku 9. áratugarins.
Pet Shop Boys hafa aldrei verið þekktir fyrir stjörnustæla og eru mikið gefnir fyrir samstarf með fólki úr ýmsum áttum sem þeim finnst passa við sína töffaraímynd. Meðal annars leikstýrði sjálfur Derek Jarman einu myndbandi þeirra, áður hefur verið minnst á hvernig þeir grófu upp hana Dusty og þeir hafa líka unnið með Tinu Turner, Madonnu, Lizu Minnelli, Rammstein, Rufus Wainwright, Kylie Minogue, Boy George, The Killers, Elton John, David Bowie, Paul Weller, Blur og Robbie Williams, og þetta er bara það sem ég veit um. Þeir hafa skipt sér af óperu, söngleikjum og alls konar leiklist. Núna nýlega vakti flutningur Barry Keoghan og Archie Madekwe á lagi þeirra „Rent“ í Saltburn sem ég ræddi í janúar endurnýjaðan áhuga á þessum snillingum, m.a. hjá mér sem leyfði þeim í kjölfarið að dómínera Spotify mitt í tvo mánuði.