Andi og efni

Höfundarverk Hermanns Stefánssonar er fjölbreytt og hann hneigist til að koma á óvart með hverri bók þó að sannarlega hafi hann líka skýr höfundareinkenni. Nýjasta skáldsaga hans, Millibilsmaður (2022), er eins konar söguleg skáldsaga frá upphafsárum Íslands nútímans en efnistökin svo nýstárleg að hún á ekki sinn líka í þeim hóp, annað orð sem mætti nota er hugmyndaskáldsaga en það form er fágætt á Íslandi og í verkinu er fetað áhugavert einstigi þess ótrúlega, skáldaða og sanna. Eitt mikilvægasta umfjöllunarefnið er samspil andatrúar og vísinda en um leið tekst höfundur á við reykvískan borgarbrag fyrir rúmlega 100 árum á skemmtilega óvélrænan og óklisjukenndan hátt gegnum persónur sem eru svolítið á skjön en samt á sinn hátt sannar. Annað ekki síður mikilvægt þema er staða einstaklings innan samfélags og smærri félaga og bókin varpar áhugaverðu ljósi á íslenska félagsmenningu.

Áleitin kápa bókarinnar er í broti sem er mjög nýstárlegt fyrir skáldverk og eiginlega táknræn fyrir frísklegan uppreisnaranda höfundar sem er þekktur fyrir að feta eigin leiðir og gerir það með miklum ágætum í þessari bók. Apinn á forsíðunni er þannig ekki frá Shutterstock heldur sannur norðlenskur api og vera hans er ef til vill fyrsta af mörgum óvæntum myndum á vegferð lesenda um skáldverk sem er ekki allt þar sem það er séð og sækir í sig veðrið við annan og eflaust þriðja lestur. Um leið finnst mér virðingin sem okkur er sýnd með þessum horfna íbúa Akureyrar gott dæmi um aðferð Hermanns yfirleitt. Hann er einn alvörugefnasti höfundur Íslands en ekki í þeirri merkingu að hann sé hátíðlegur og leiðinlegur heldur þvert á móti glettinn og textinn iðandi af lífi, en hann sýnir skáldskapnum og orðinu þá virðingu sem það verðskuldar og við þurfum einmitt fleiri þannig bækur.

Previous
Previous

Síungur útgefandi

Next
Next

Kakan og hurðahúnninn