Röng Norma

Það eru sannarlega forréttindi og kannski þau einu bókmenntalegu forréttindi sem skipta máli að vera meðal þeirra fyrstu að lesa verk samin af snilld. Nýlega kom út ný bók eftir hina mikilvirku kanadísku skáldkonu Anne Carson (f. 1950) sem nú býr hluta árs á Íslandi. Carson er sennilega eitt þekktasta og virtasta ljóðskáld heimsins á 21. öld, m.a. fyrir einstakt ljóðmál sem einkennist af óvenjulegum frumleika og uppreisn gegn hefðum sem hún er þó flestum kunnari og vísar mikið í á tilgerðarlausan og stundum undirfurðulegan hátt. Hún er eins konar snillingur, svipað og Alice Munro sem ég hef líka skrifað um á þessari síðu. Aðrir kanadískir höfundar, m.a. Margaret Atwood, Timothy Findley og Carol Shields, eru líka frábærir og oft frumlegir en þær Anne og Alice eru líklega einu sönnu snillingarnir í hópnum.

Wrong Norma (2024) er illskilgreinanleg bók þar sem saman fara ljóð, ritgerðir og torflokkanlegir smáprósar. Höfundur segir okkur að þetta eigi ekki að vera heild og það skýri titilinn; samt er þetta sérstök heildræn lestrarupplifun. Stíllinn er ljóðrænn hvort sem við erum stödd í ljóði, prósa eða leik og fær lesandann til að velta fyrir sér orðunum í hverri línu þannig að þetta er hæglestrarbók þó að hún sé ekki tyrfin. Carson er í uppreisn gegn orðunum með þau sjálf að vopni, eins og eins konar lisan al gaib ljóðlistarinnar. Eiginlega finnst manni verkið vera röklegt framhald af heimspeki 20. aldar sem hefur runnið saman við myndina, leikritið og ljóðið. Um leið er áhugi höfundarins á grískum skáldskap fornaldar henni sífelldur innblástur og á eflaust þátt í hinni sérstæðu framandgervingu sem einkennir textana.

Það er engin leið að lýsa snjöllum verkum í stuttu máli því að þau kalla eðli málsins samkvæmt á margra mánaða ef ekki áratuga rannsóknir. Í staðinn má setja stytt dæmi úr bókinni sem er „þýðing“ Anne á Plató sem vísar í hinar og þessar áttir, skáldkonan umgengst hina löngu horfnu snillinga fornaldar gjarnan eins og þeir séu gamlir vinir hennar en um leið tekst hún á við margræðni og fjölbreytni þeirra á glettinn en þó grafalvarlegan hátt. Lesandinn hefur aldrei séð annað eins, verk eins og þetta hrista af sér alla hugsanlega gagnrýni. Næsta skref verður að lesa meiri gríska heimspeki í von um að hún nái að hræra við mér eins og skáldinu.

Previous
Previous

Teiknimyndamenntun aldraðs bókmenntafræðings

Next
Next

List smáatriðanna (og foreldrahlutverksins)